blogg

Nýtt

Lífræn ungbarnaföt – Íslensk hönnun

Tamiko íslenskt barnafatamerki með lífrænan fatnað. Fyrirburaföt og föt upp að 2ja ára.Eftir smávegis tafir þá er nú loksins von á nýju vörulínunni okkar í Tamiko. Við erum að opna netverslun fyrir íslenska markaðinn og gert er ráð fyrir að opna hana um miðjan janúar.

Lífræn ungbarnaföt er eitthvað sem æ fleiri foreldrar leita að, enda eru ítrekað að koma upp mál í sambandi við eiturefni í fatnaði. Á síðunni verður líka eitthvað af upplýsingum um helstu eiturefnin, svo foreldrar geti verið meðvitaðir um hvar þau er helst að finna og hvernig þau geta haft áhrif á heilsu barna.

(Flest eiturefni fara úr við fyrsta þvott og því er mjög mikilvægt að þvo allan nýjan fatnað áður en barnið notar hann í fyrsta skipti.)

Nýju fötin eru líka með blýlausum smellum og pakkningar eru umhverfisvænar.

Nú bætast líka við nýjar vörutegundir, m.a. yndislega mjúk teppi og útifatnaður úr lífrænu bómullarflísi.

Fréttir

Íslenskt barnafatamerki með lífræn föt

Tamiko hefur framleitt fyrirbura- og nýburafatnað frá 2012, en nú er merkið að stækka og mun bjóða vörur fyrir börn að 2ja ára aldri. Tamiko er íslenskt barnafatamerki með lífrænar vörur

Allar vörurnar verða úr 100% lífrænni bómull með blýlausum smellum.

Þetta er fyrsta íslenska barnafatamerkið með lífræn föt, sem við vitum af, og stefnan er að framleiða eingöngu vörur úr lífrænum efnum. Það á líka við um teppi og utanyfirfatnað sem kemur á markað nú í desember. Þær vörutegundir líta út fyrir að vera flís en eru í raun gerðar úr lífrænni bómull sem er með flísáferð.

Allar vörurnar verða til í fyrirburastærðum og upp í stærð 74/80 eða 86/92, en það fer eftir vörutegundum.

Fréttir, Nýtt, Rannsóknir

Áhrif gasmengunar á meðgöngu

Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að tengsl eru á milli fyrirburafæðinga og loftmengunar af völdum brennisteinsdíoxíðs (SO2)

Fyrri rannsóknin sem er vitnað í hér var gerð í Kanada 2010 (Mount Sinai sjúkrahúsið og Toronto háskóli), en það er samantekt á 41 rannsókn um loftmengun og fæðingarútkomu.

Talið er að nokkrir þættir liggi að baki neikvæðum niðurstöðum fæðinga meðal mæðra sem komast í snertingu við loftmengun (þ.e. með innöndun), m.a. bólga og bein eitrunaráhrif á fóstur og fylgju.

Niðurstaða rannsóknarinnar sýndi fram á tengsl milli innöndunar brennisteinsdíoxíðs (SO2) og fyrirbura- og léttburafæðinga.

Innöndun brennisteinsdíoxíðs (SO2) var tengd við fyrirburafæðingar, innöndun fínna agna ≤2,5 μM (PM2,5) var tengd við léttburafæðingar, fyrirburafæðingar og fæðingar þar sem börn voru fædd lítil m.v. meðgöngulengd, og innöndun agna smærri en 10 μM (PM10) var tengd við fæðingar þar sem börn fæddust lítil m.v. meðgöngulengd. (Nánari útskýring á mælieiningum er hér neðar.)

Það er því full ástæða fyrir ófrískar konur að fylgjast vel með mengunarmælingum á því svæði sem þær eru á og fylgja fyrirmælum yfirvalda. Ófrískar konur eiga að fara eftir sömu tilmælum og er beint til fólks með undirliggjandi sjúkdóma (og barna).

Önnur rannsókn, sem var framkvæmd í Bandaríkjunum á þessu ári, leiddi í ljós að tengsl eru milli loftmengunar (m.a. vegna brennisteinsdíoxíðs) og háþrýstingsraskana á meðgöngu. Raskanir geta m.a. verið meðgöngueitrun, sem er algeng orsök fyrirburafæðinga. Sú rannsókn verður birt í heild sinni árið 2015.

Til að skilja betur þessar mælieiningar eru hér eftirfarandi útskýringar;

PM2,5 eru smærri agnir en PM10, en almennt er talað um að agnir séu hættulegri heilsu eftir því sem þær eru minni. PM2,5 eru agnir sem eru minni en 2,5 míkrómetrar í þvermál (u.þ.b. 1/4 af ummáli hárs), en þær komast enn dýpra ofan í lungun en PM10.

Úr áfangaskýrslu til Vegagerðarinnar fyrir árið 2008; Svifryksmengun vegna umferðar:

„Því fínna sem svifrykið er því dýpra kemst það niður í lungun og verður þeim mun skaðlegra heilsu manna. Auk þess eru fínni agnir frekar samsettar úr skaðlegum efnum en þær grófari (Þór Sigurðarson, 2006). Sem stendur eru eingöngu til reglur sem takmarka PM10, en í Bandaríkjunum hafa nýlega verið settar reglur þar sem sólarhrings viðmiðunarmörk fyrir fínt svifryk (PM2,5) voru lækkuð úr 65 µg/m3 í 35 µg/m3 vegna hættulegra áhrifa á heilsufar fólks (Environmental Protection Agency, 2006).“

Gagnlegir tenglar

Vefur Umhverfisstofnunar er hægt að fylgjast með mælingum á loftgæðum víðsvegar um landið

Nýjustu tilkynningar frá Almannavörnum

Áhrif á heilsufar og ráðleggingar um viðbrögð við SO2 frá eldgosum

Lofttegundir og mengun

Reynslusögur

Ertu fyrirburaforeldri og langar að deila þinni reynslusögu?

Okkur vantar fleiri reynslusögur hér á síðuna. Tilgangurinn með þeim er að hjálpa foreldrum sem hafa nýlega átt barn fyrir tímann og vita ekki hverju er að búast við eða hvað telst „eðlilegt.“

Sögurnar mega vera nafnlausar ef þess er óskað, en helst með mynd af barninu.

Kíktu á sögurnar sem eru komnar til að fá hugmynd um hvernig þær eru settar upp. Það eru engar reglur um uppsetningu, en það er gott að taka fram hvernig fyrstu einkenni voru og hvort ástæða fyrirburafæðingar var þekkt.