Heimsóknir systkina

Rannsóknir sýna að það, að leyfa systkinum að heimsækja fyrirburann, eykur ekki hættuna á sýkingum á nýburagjörgæslum, svo lengi sem þau fylgja sömu reglum og aðrir gestir um handþvott og almennt heilbrigði. Ekki koma með systkini á deildina ef þau eru með kvef, hita, hósta, hlaupabólu, eða einhver merki um sýkingu. Það má ekki gleymast að þetta er gjörgæsla.

Fyrir heimsókn er nauðsynlegt að útskýra hvað slöngurnar og snúrurnar gera, svo þau verði ekki hrædd þegar þau sjá þær. Ef þú þarft aðstoð við að útskýra þetta, geturðu spurt hjúkrunarfræðingana. Þeirra reynsla er ómetanleg. Spurðu hvort systkini megi koma með gjöf handa barninu, bangsa eða mynd sem þau hafa teiknað. Þetta getur hjálpað systkinum að tengjast nýja barninu og finnast þau vera hluti af lífi ykkar á sjúkrahúsinu. Systkinið gæti skilið betur hvers vegna mamma og/eða pabbi eru svona lítið heima. Það getur auk þess dregið úr samviskubitinu sem foreldrar finna svo oft fyrir.

Takið mynd af systkinum með fyrirburanum, jafnvel þótt fyrirburinn sé í hitakassa. Munið bara að nota ekki flass, því það getur verið mikið áreiti fyrir fyrirburann.