Systkini fyrirbura

Að eignast fyrirbura hefur mikil áhrif á alla fjölskylduna en sérstaklega á systkini barnsins. Við höfum heyrt um afbrýðisemi og hegðunarvandamál sem fylgja því þegar börn eignast systkini undir venjulegum kringumstæðum. Þegar barnið fæðist fyrir tímann, er hægt að margfalda það með fimm.

Börn hafa sterkt ímyndunarafl. Ef þau skilja ekki aðstæðurnar eiga þau það til að skálda upp sögur um það sem er að gerast. Því yngra sem barnið er, þeim mun hræðilegri geta þessar sögur verið. Þess vegna er mikilvægt að útskýra vel fyrir þeim, í orðum sem þau skilja, hvað er að gerast og hvers vegna.

Það fer eftir aldri systkina hversu vel þau skilja hvað er að gerast, en hér eru nokkur ráð:

  • Sýnið þeim myndir af nýja barninu eins fljótt og hægt er.
  • Útskýrið fyrir þeim að barnið megi ekki koma strax heim af sjúkrahúsinu því það sé lasið. (Fyrir systkin á leikskólaaldri er hægt að bæta við að barnið þurfi meðal í marga daga áður en því batnar.)
  • Þegar þið sýnið systkinum mynd af fyrirburanum, útskýrið fyrir þeim að slöngurnar séu fyrir mat og lyf, því barnið sé of lítið til að nota skeið.
  • Ef systkinin eru mjög ung, fullvissið þau um að þetta sé ekki smitandi, því kannski halda þau að þetta geti líka komið fyrir þau sjálf eða ykkur, foreldrana.
  • Ef fyrirburinn er með síblástur (CPAP), útskýrið fyrir systkinum að þetta sé til að hjálpa barninu að anda.
  • Gangið úr skugga um að þau skilji hvers vegna þið eruð svona lítið heima við.
  • Segið þeim að þið elskið þau og veitið þeim fulla athygli þegar þið eruð heima.
  • Þið getið verið mjög utan við ykkur, en reynið samt að svara öllum spurningum sem systkini spyrja. Ef þið forðist að svara spurningum geta þau farið að búast við því versta eða búa til sögur.
  • Spyrjið hvort þau vilji kaupa gjöf handa litla barninu. Það lætur þeim finnast eins og þau séu hluti af lífi hennar/hans. (Þau verða líka örugglega ánægð að fá nýtt dót fyrir sig.)

Ung börn hafa gaman af að teikna myndir handa fólkinu sem þeim þykir vænt um, svo spyrjið hvort þau vilji teikna mynd handa litla barninu. Og ef þau fá að heimasækja barnið á nýburagjörgæsluna, biðjið þau um að teikna mynd af því sem þau sáu þar. Það er líka góð leið til að finna út hvernig þau upplifa heimsóknina og hvað er að veltast um í kollinum á þeim.

Heimsóknir systkina

Rannsóknir sýna að það að leyfa systkinum að heimsækja fyrirburann, eykur ekki hættuna á sýkingum á nýburagjörgæslum. Það er, svo lengi sem þau fylgja sömu reglum og aðrir gestir um handþvott og almennt heilbrigði.

Ekki koma með systkini á deildina ef þau eru með kvef, hita, hósta, hlaupabólu, eða einhver merki um sýkingu. Það má ekki gleymast að þetta er gjörgæsla.

Fyrir heimsókn er nauðsynlegt að útskýra hvað slöngurnar og snúrurnar gera, svo þau verði ekki hrædd þegar þau sjá þær. Ef þú þarft aðstoð við að útskýra það, geturðu spurt starfsfólkið. Þeirra reynsla er ómetanleg.

Spurðu hvort systkini megi koma með gjöf handa barninu, bangsa eða mynd sem þau hafa teiknað. Þetta getur hjálpað systkinum að tengjast nýja barninu og finnast þau vera hluti af lífi ykkar á sjúkrahúsinu. Systkinið gæti skilið betur hvers vegna mamma og/eða pabbi eru svona lítið heima. Það getur auk þess dregið úr samviskubitinu sem foreldrar finna svo oft fyrir.

Takið mynd af systkinum með fyrirburanum, jafnvel þótt fyrirburinn sé í hitakassa. Munið bara að nota ekki flass, því það getur verið mikið áreiti fyrir fyrirburann.