Hvernig get ég hjálpað?

Nánustu aðstandendur og vinir spila stórt hlutverk meðan á bataferli fyrirburans stendur. En munið að það þarf alltaf að vera samkvæmt forsendum foreldranna.

Fyrirburaforeldrar þurfa næði á meðan þau ganga í gegnum þessa erfiðu lífsreynslu. Stundum svara þau ekki í símann eða svara skilaboðum fyrr en þau eru tilbúin til þess, jafnvel mörgum vikum eða mánuðum seinna. Það er um að gera að virða það að þau eru að ganga í gegnum mjög erfiðan tíma og kannski ekki tilbúin að þiggja aðstoð eða góð ráð, sama frá hverjum það kemur.

Spurningaflóð

Ekki pressa á að fá svör við spurningum. Og munið að taka því ekki sem persónulegri móðgun ef svör berast ekki nógu fljótt, að ykkar mati.

Hér kemur sér vel að nota samfélagsmiðla eins og Facebook, Instagram, nino.is eða blogg, því foreldrarnir geta sett inn fréttir um þroska barnsins, án þess að eyða of miklum tíma í símanum eða að svara tölvupóstum og sms.

Hvað þurfa foreldrar aðstoð með?

Það er margt sem þú getur gert til að hjálpa. Eins og til dæmis að hjálpa til við heimilisstörfin, versla í matinn eða sækja aðrar vörur sem vantar.

Ef fyrirburinn á systkin, geturðu boðist til að sjá um mat fyrir þau heima hjá þeim eða þér, eða skutla á milli. Eða, ef þú átt börn, boðið þeim í náttfatapartí (jafnvel þó þau gisti ekki), farið með þau í Húsdýragarðinn, á skauta, í bíó eða fjöruferð.

Ekki hika við að spyrja foreldrana hvað það er sem þau vantar helst aðstoð með. (Til að fá fleiri hugmyndir, settu þig í spor foreldranna og reyndu að ímynda þér hvað þú mundir vilja fá aðstoð með ef þú værir í þeirra sporum.) Ef þú hefur tök á því, geturðu boðist til að flytja inn til þeirra til að aðstoða með börnin og heimilið, á meðan foreldrarnir dvelja á spítalanum.