Fyrirburinn Andrea
Laugardagskvöldið átti að vera kósý og var tekin spennumynd og sofnað svo fljótlega upp úr miðnætti. Þess má geta að í 3 vikur á undan var ég alltaf búin að vera með smá leka og búin að fara 2-3svar upp á spítala og var meðal annars búið að segja við mig „þú ert bara með þvagleka.” Ég man hvað ég var hneyksluð á þessum orðum og hugsaði „ég myndi nú vita ef ég væri að pissa í mig.” Allavega…. ég vakna svo við það um nóttina þegar ég er að snúa mér að ég finn að það er að leka og finnst það vera óvenjumikið og fer inn á bað, þá er enn meiri leki og mikið blóð. Barnsfaðir minn hringir niður á spítala og talar við vakthafandi lækni og segir honum stöðu mála. Þarna var ég komin 28 vikur og mikið vatn greinilega farið og mikil blæðing. Það var ótrúlegt að læknirinn dró aðeins úr því að við myndum koma….en barnsfaðir minn tók ekki annað í mál en að koma með mig niður eftir og það STRAX. Það er víst mjög erfitt að greina legvatnsleka og það var ekki fyrr en ég lá þarna á skoðunarbekknum að ég fann þetta leka og sagði lækninum frá því að þá greindist þetta loksins legvatnsleki! Mér voru gefin „stopplyf” en þar sem ég var búin að missa nánast allt vatnið þá mátti bara stoppa mig af einu sinni. Í kjölfarið fékk ég sterasprautur til að örva þroska lungna barnsins.
Ég man hvað ég var í miklu sjokki þessa nótt, ég hafði framan af alltaf verið hraust, aldrei farið í aðgerðir né lagst inn á spítala og var hræddust í heimi við sprautur. Þannig að mesti ótti minn þessa nótt var að leggjast inn á spítala!! Ég var náttúrulega í afneitun hvað barnið varðaði. Ég grét svo mikið að barnsfaðir minn fékk að gista hjá mér í nokkra daga en ég var algjörlega rúmföst og mátti mig hvergi hreyfa. Ég var lögð inn á meðgöngudeildina og þar tóku yndislegar konur á móti mér sem vildu allt fyrir mig gera, get seint þakkað þessum góðu konum. 17. september „hélt” ég upp á 25 ára afmælið mitt inni á meðgöngudeild…. barnsfaðir minn var svo góður að gefa mér tölvu og komst ég í samband við umheiminn og gat lesið allt sem viðkom fyrirburum. En það var ótrúlegt hvað maður vissi sama sem ekkert um fyrirbura né hafði pælt einhvern tímann í því. Svo þegar maður lenti í þessu þá var svo mikið af fólki í kringum okkur sem þekkti til einhvers sem hafði eignast fyrirbura eða var jafnvel fyrirburi sjálft.
Laugardagskvöldið 18. september var mér gefið lyf til að róa legið því ég var komin með svo mikla samdráttarverki. Barnsfaðir minn kom og við horfðum á mynd og ég var alveg í „essinu” mínu enda búið að dópa mig upp af allskyns lyfjum svo ég var vel góð á því 🙂 Klukkan 23.30 kvaddi barnsfaðir minn mig og hélt heim á leið, ég náði að sofa í 2 tíma en vaknaði svo upp og þurfti á klósettið…þarna var ég loksins komin með klósettleyfi! Þegar ég kom á klósettið var farið að blæða all verulega og hélt ég þarna að þetta væri búið…barnið væri farið! Mér var komið strax upp í rúm og var sett í línurit, það var mikill léttir að heyra hjartsláttinn. Barnsfaðir minn kom fljótlega og kl. 2.15 var ég færð upp á fæðingargang. Klukkan 3 var ég komin með 4 í útvíkkun. Við fengum mömmu til að koma og vera okkar stuðningur.
Kl. 6.55 var útvíkkun lokið og kl. 07.03 að morgni 19. september fæðist litla prinsessan okkar, hún skaust út með látum og í því opnaðist hurðin og inn kom hlaupandi læknalið sem tók hana strax og skoðaði hana örstutt, settu hana í hitakassa og dyrnar lokuðust. Ég kallaði; „var þetta strákur eða stelpa?”
Ég var frekar spræk eftir fæðinguna og vildi strax fá að standa upp og fara á klósettið og ætluðu þær varla að leyfa mér það en létu undan að lokum og fylgdu mér. Ég vildi svo fá að fara upp á Vökudeild og sjá litlu stelpuna mína en ég mátti ekki fara strax, bæði var verið að rannsaka hana og ég átti að hvílast.
Tveimur klukkustundum síðar fengum við loksins að fara upp á Vökudeild. Þegar ég sá litlu stelpuna mína liggja þarna í hitakassanum brast ég í grát. Hún var svo agnarsmá og með allt þetta kolsvarta hár 🙂 Ég fékk hana í fangið í smástund eða á bera bringuna eins og mælt var með…ohh hvað það var yndislegt að fá að halda henni upp að sér.
Stelpan okkar fæddist sem sagt á 29. viku+3 dagar og var hún 1327 gr eða 5 1/2 mörk og 39,5 cm. Þrædd var sonda og henni gefin smá þurrmjólk.
Ég þurfti svo að fara niður á meðgöngudeild og byrja að mjólka mig. Það var rosalega erfitt og fékk ég stálma en barðist í gegnum þetta til að stelpan mín fengi móðurmjólkina. Ég náði 3,5 ml af broddi sem ég fór með til þeirra um kvöldið, sem myndi duga henni í 2 gjafir.
Starfsfólkið á Vökudeild var yndislegt og hjálpaði okkur í gegnum hvert einasta skref. Strax daginn eftir fengum við að þrífa hana með svampi og skipta á henni en þó bara inni í kassanum.
Á þriðja degi fór ég heim. Það var skrítið að fara heim því maður var búinn að hugsa það alltaf þannig að maður færi heim með barnið sitt eins og allir aðrir en svona var þetta hjá mér og ég ákvað að taka þessu eins og „einskonar vinnu.”
Ég vaknaði alla morgna um 7 og mjólkaði mig og var mætt niður á Vökudeild kl. 8. Stofugangur var á milli 9 og 12 og máttu þá foreldrar ekki vera, fór ég þá heim, lagði mig og kom aftur um kl. 13. Fór svo oftast ekki heim aftur fyrr en milli 20 og 22. Svona voru allir dagar og sumir dagar erfiðari en aðrir. Maður var voða strekktur yfir þessum nemum sem voru á henni en tækin píptu ef hún hætti að anda og eins ef neminn datt af. Tækið tók upp á því einn daginn að pípa óvenju mikið og ég fór í panikk en hjúkkan kom og fullvissaði mig um að þetta væri allt í lagi og að ég ætti að venja mig á að horfa framan í barnið þegar tækið pípti en sem betur fer þurftum við aldrei að horfa upp á hana blána eða neitt svoleiðis.
Stelpan okkar, sem var svo nefnd Andrea, þurfti aldrei neina öndunaraðstoð eða neitt og sögðu læknarnir alltaf að það væri sko ekkert að þessari stelpu, hún þurfti bara að stækka.
Og sú varð raunin. Þann 5. nóvember fengum við að fara heim með Andreu og var hún þá orðin 2,5 kg. Okkur var ekki gefin nein von í upphafi um að við fengjum að fara fyrr heim en í byrjun desember, sem átti að vera fæðingardagurinn hennar, en við vorum heppin því stelpan okkar var sterk 🙂
Andrea hefur aldrei verið neitt veikindabarn. Hún byrjaði að tala mjög snemma og var mjög skýrmælt. Hún er kraftmikill einstaklingur með mikla orku og ber engin merki um að vera fyrirburi. Henni gengur vel í skóla, á marga vini og er í söng- og leiklistarnámi en það kom ekkert annað til greina, því hún syngur hástöfum allan sólarhringinn 🙂
Þess má geta í lokin að það var aldrei vitað af hverju ég fór af stað. Það var rannsakað í þaula en engin skýring. Læknarnir héldu fyrst að ég hefði fengið sýkingu en svo var ekki.
Starfsfólki á meðgöngudeild og á Vökudeild getum við seint þakkað og var Sveinn barnalæknir algjörlega okkar stoð og stytta. Fékk ég greiðan aðgang að honum eftir að heim var komið og gat þá alltaf sent honum póst um einhver áhyggjuefni sem voru stórmál í mínum huga á þeim tíma, enda með fyrsta barn og í þessum aðstæðum.
Það má með sanni segja að Andrea sé kraftaverkabarn 🙂
Kristín S.
Sumarið 2009
En sagan endar vel 🙂 Eftir sjö vikur af daglegri heimsókn á Barnaspítalann kom dóttir okkar loks heim og fengu bræður hennar loks að hitta hana. Vökudeildin var lokuð börnum undir 12 ára á þessum tíma vegna svínaflensunnar svo það var heldur betur spenningur að sjá þetta barn sem mamma og pabbi voru alltaf að heimsækja. Dóttir okkar er heilsuhraust og heilbrigt barn sem við þökkum fyrir á hverjum degi. Starfsfólki Kvennadeildar og Vökudeildar getum við seint þakkað. Það vinnur vinnu sína vel en því miður er álag mikið og vinnuaðstæður ekki góðar á Kvennadeild.
Hafdís Priscilla
Sagan okkar – Hilmir Freyr
Níu dögum eftir keisarann var ég loksins útskrifuð af spítalanum. Hilmir Freyr, sonur okkar, þurfti að vera í öndunarvél í 6 daga og ég fékk hann fyrst í fangið þegar hann losnaði við öndunarvélina, æðisleg tilfinning eftir erfiðan tíma. Hilmir þurfti svo að vera á Cpap (öndunaraðstoð) í 5 vikur í viðbót þar sem illa gekk að hægja á önduninni hjá honum en það hafðist að lokum að venja hann af því. Þetta gekk allt nokkuð vel fyrir utan nokkra hluti, Hilmir þurfti að fá lyf til að loka fósturæðinni og það virkaði, guði sé lof, svo ekki var þörf á aðgerð. Það kom í ljós að það hafði blætt inn á heilann hjá honum á fyrstu eða annarri viku en auðvitað varð það rosalegt áfall að heyra það. En guði sé lof þá var þetta bara 1. stigs blæðing og þegar hann var ómaður aftur fyrir heimför þá var blæðingin gengin til baka og virðist þetta ekki ætla að draga neinn dilk á eftir sér. Svo þurfti Hilmir að fá blóðgjöf í kringum 6. viku þar sem hann hafði verið blóðlítill í langan tíma en læknarnir reynt að draga það að gefa honum og sjá hvort hann myndi ekki taka við sér sjálfur. En það gerðist ekki og því var gripið til þess að gefa honum blóð.
Hilmir var svo útskrifaður af vökunni eftir 8 vikur og 1 dag. Yndislegur dagur sem það var að fá hann heim því oft var ansi stutt í tárin á kvöldin þegar maður þurfti að fara heim á kvöldin. Hilmir Freyr er nú 3ja ára stór og sterkur strákur og er yfirleitt hlaupandi hérna um allt og oftast aðeins að flýta sér of mikið, svona svipað eins og hann kom í þennan heim 🙂
Eva María Hallgrímsdóttir
Fyrirbura-tvíburafæðing – Atli og Ívar fæddir eftir 34 vikur og 2 daga
Þegar ég fer í 30 vikna sónar kemur í ljós að önnur fylgjan er fyrirsæt, liggur eins og koddi fyrir leið þeirra í heiminn. Ákveðið er að fylgjast betur með og erum við boðuð aftur í skoðun 2 vikum seinna. Þá hefur lítið breyst og ákveðið er að leggja mig inn við 34 vikurnar vegna hættu á fylgjulosi, sem ég hafði ekki hugmynd um hvað var. Fékk bækling um það til að lesa. Við þessa ákvörðun var einnig tekin ákvörðun um keisaraskurð og settur dagur var 14. apríl. Ég átti s.s. að liggja þarna inni í 4-5 vikur. Ég reyndi að malda í móinn og notaði einhverjar leiðir til að fá að fara heim og þannig en ekkert gekk. Þarna yrði ég að vera þangað til keisari yrði framkvæmdur 14. apríl. Við fórum heim og gerðum heimilið og mig klára en á heimilinu voru 2 önnur börn þá 10 og 12 ára og þurfti að skipuleggja allt í kringum þau, skóla og annað slíkt.
Innlögn:
Það var á afmælisdegi systur tvíburanna, 23. mars 2009 sem ég var lögð inn. Ég reyndi að kaupa helgarferð heim í afslöppun og kannski klippingu en ekkert gekk, þarna átti ég að vera þangað til að ég færi heim, 2 börnum ríkari.
Mér var úthlutað herbergi næst dyrunum á Kvennadeildinni, þar inni voru 3 rúm. Ein kona var þar en hún var á heimleið. Fínt. Gott að fá að vera einn aðeins og spá í hlutina. Ég fékk rúmið við gluggana og beint á móti mér var sjónvarp. Vúhú, algjör snilld að geta leyft sér það að hanga í rúminu alla daga og glápa á sjónvarpið.
Umheimurinn:
Eitthvað vantaði að liggja alein þarna inni og slappa af. Jú það var umheimurinn, engar fréttir, ekkert spjall við vinina á msn eða slúður. Ég óskaði eftir því að fá nettengingu fyrir tölvuna en það gekk erfiðlega. Það þurfti að sækja um í gegnum dömurnar á deildinni og niður til þeirra í tæknideildinni. Það tók smá tíma. Daginn eftir var ekkert að gerast og ég orðin óþolinmóð, já ég veit að þetta var annar dagurinn en það gerist ekki oft sem manni er kippt í burtu frá raunveruleikanum og í einangrun.
Maðurinn minn reddaði snúru í tölvuna og ég gat skoðað fréttir og bloggað.
Þóra Steingríms sérfræðingur kom til mín og fór létt yfir stöðuna þar sem hún var að fara í frí og kæmi ekki til baka fyrr en 8. apríl. Tímanlega til að skera mig. Hún sagði að daginn eftir, 26. mars, myndi ég fara í mónitor, keisarafræðslu og tækifæri til að klippa á frjósemina mína, sem ég ætlaði að gera. Við kvöddumst með þeim orðum að hún kæmi og kíkti á mig um leið og hún kæmi úr fríi.
26. mars 2009
Um nóttina var ég að bylta mér á snúningslakinu eins og svo oft áður og finn einhvern verk í vinstri síðunni, stoðverk. Spáði svo sem ekki mikið í það heldur einbeitti mér að því að fara að sofa. Heitt, eina loftræstingin var glugginn, opnaði aðeins smá rifu, sá að það hafði snjóað pínu. Lokaði honum aftur þar sem það snöggkólnaði í herberginu.
Um morguninn er ég vakin í morgunmat. Ég rölti fram og borða í rólegheitum. Því næst skríð ég til baka í rúmið og glápi á endurtekið efni á Stöð 2. Rétt um tíuleytið er ég kölluð í mónitor og til að skrifa undir pappíra. Ég skutla mér fram úr og labba af stað. Allt í einu byrjar eitthvað að leka niður hjá mér. Ég hugsaði með mér; fjandinn, er ég að míga á mig hérna á miðjum gangi, og hélt bara áfram, þetta var ekki það mikið. Aftur kemur gusa og ég hugsaði þá; nei, þetta er örugglega legvatnið að fara. Svo skaust pera í kollinn á mér, legvatnið kemst ekki neitt þar sem fylgjan er fyrir!
Hvað getur þetta verið, hugsaði ég. Kippi náttbuxunum upp og sé að ég er blóði drifin.
Hjördís, segi ég. Það kemur blóð hjá mér.
Hjördís: Ha, hvað segirðu og grípur í höndina á mér.
Ég: Það kemur meira en það eru engir verkir.
Hjördís: Viltu gjöra svo vel að snúa við og fara upp í rúm.
Ég trítla til baka á meðan blóðið seytlar í rólegheitum niður legginn. Hjördís kallar á fleiri til aðstoðar til að meta stöðuna.
Það fyrsta sem mér datt í hug var að leggjast upp í fyrsta rúm sem ég sæi og spurði Hjördísi hvaða rúm ég ætti að fara í, eins og það væri í vafa. Auðvitað í MITT rúm. Ég labba að rúminu og eru þá 2 aðrar komnar á undan mér og bíða eftir mér. Ég byrja á að taka snúningslakið og fleygja því út í horn, ætlaði ekki að láta blæða í það.
Á meðan var ég mjög róleg og var í því að segja þeim frá hvernig hreyfingar voru, hvort kúlan væri hörð eða mjúk. Staðan er tekin og ákveðið er að þennan dag myndu guttarnir fæðast.
Ekkert stress. Hringdi í pabbann og sagði: Þú verður að koma núna, það er byrjað að blæða. Síðan skelli ég bara á hann.
Hann ræsti restina af mannskapnum af stað til að huga að heimili og börnum.
Upp fór ég og var farin að skjálfa, seinna var mér sagt að þetta hafi verið sjokk. Ég var samt pollróleg. Sagði til þegar meira blóð kom og sagði frá hreyfingum.
Maðurinn kom í hús eftir að hafa tekið strikið frá Hafnarfirði inn í Reykjavík á sniglahraða, að hans mati. Skurðstofan gerð klár og mér trillað inn.
Við vorum drifin af stað upp á skurðstofu þar sem komið var í ljós að þessi fæðing yrði að fara af stað. Þarna er ég komin 34 vikur og 2 daga.
Ég var hrædd, ég var spennt, ég var kvíðin en samt ekki. Fullt af fólki kom og kynnti sig, tvennt af öllu fyrir tvíbura. Ég var ekki í nokkru einasta standi til að heilsa en gerði það samt. Í mig voru dæld allskyns lyf svo að ég myndi halda dampi á meðan. Síðan var ég krossfest og dæling hófst á deyfingunni. Stuttu seinna kom kalda spreyið og þegar allt var klárt þar var hafist handa.
Skurðlæknarnir, 2 konur, spjölluðu saman um sumarbústaðaferð og rauðvín… skrýtið en ég held að þetta hafi verið sálfræði. Ég sá að maðurinn minn var orðin fölur í framan og ákvað að hætta að hlusta á dásemdarferðina í bústaðinn og einbeita mér að kallinum. Við fórum að spjalla um vinnuna hans og aðdraganda fæðingarinnar. Eftir smá stund fann ég þrýsting og sagði: Jæja, nú kemur einn, og viti menn, nokkrum sekúndum síðar heyrum við grát. Stuttu seinna finn ég annan þrýsting og segi: Þá kemur hinn, og grátur heyrðist í kjölfarið, aðeins seinna en hann kom.
Kl. 11:32 þann 26. mars 2009 fæðast 2 drengir. Annar er 2140 grömm hinn er 2090 grömm.
Litlu strákarnir voru færðir af Wembley yfir til lækna sem byrjuðu að þrífa þá og taka stöðuna á þeim. 10 fingur, 10 tær.
Vatn var í lungum annars tvíburans enda ekki tilbúinn að koma strax. Þeir voru teknir, þvegnir og pakkað inn og ýtt inn á Vökudeild í slöngur og hitakassa. Pabbinn hitti þá aðeins fyrst og mér voru sýndir þeir í nokkrar sekúndur.
Eftir að hafa verið á vöknun eftir aðgerðina fékk ég að fara aftur til baka í herbergið mitt og var rosalega glöð að sjá að ég var ennþá ein í herbergi, í bili.
Þá hófst barningurinn að fara að koma mjólkinni af stað fyrir 2 einstaklinga en sem betur fer hef ég forsögu með mér að mjólka sæmilega þannig að ég hafði s.s. ekki miklar áhyggjur af því. Það tókst seinna um kvöldið og fékk tvíburi A broddinn þá um nóttina. Tvíburi B var ekki tilbúinn en hann fékk glúkósa í 2 daga á meðan verið var að sjúga úr lungunum hans.
Að gamni kíkti ég á símann minn þegar ég var komin niður og athugaði aðdragandann. Frá því að ég hringdi í manninn minn og þangað til guttarnir voru fæddir leið klukkutími og 1 mínúta. Ég hafði hringt í hann kl. 10:31 en þeir eru fæddir kl. 11:32.
Ég fór að hitta gaurana á Vökudeildinni þegar þeir voru 6 klst gamlir.
Mér brá pínu að sjá þá svona og að geta ekki tekið þá upp og knúsað þá. Fannst þeir vera eitthvað svo aleinir. En starfsfólk Vökudeildarinnar er frábært og maður vissi frá upphafi að þeir væru í góðum höndum.
Á föstudeginum þurfti ég að fara yfir á sængurkvennadeild af því meðgöngudeildin er lokuð um helgar! Mér fannst það ekki gaman. Að þurfa að dröslast með allt draslið mitt fram og til baka nýskriðin úr keisarafæðingu fyrir tímann.
Ég labbaði eða kom mér í hjólastól til þeirra nokkrum sinnum á dag til að færa þeim mjólk og horfa á þá. Ég fékk að halda á tvíbura A þegar þeir voru 2ja daga gamlir, hinn varð að bíða aðeins lengur.
Þegar þeir voru nokkurra daga gamlir reyndi ég að setja þá á brjóst en þeir voru ekki búnir að þróa þann þroska með sér og sagði læknirinn að það væri oft í kringum 37 vikna meðgöngu. Á meðan notaði ég brjóstapumpu og gaf þeim í gegnum sondu eða með pela.
Í rauninni var ekki mikið sem kom upp á meðan þeir voru þarna annað en að annar þeirra ældi frekar mikið og ég var mjög hrædd um hann á tímabili. Ég spurði hvort það gæti verið að hann væri með fyrirburabakflæði en læknirinn vildi nú ekkert kannast við það. Drengurinn hélt áfram að kasta svona upp og fórum við þá fram á að hann yrði skoðaður. Það gekk nú ekki vel þar sem hann er fyrirburi og erfitt að komast að þeim með sondu og með diskótæki (tæki sem nemur öndunarhreyfingar) um sig. Var því ákveðið að fylgjast betur með honum.
Eftir nokkra daga fór ég heim barnlaus. Það var mjög skrýtið og erfitt.
Ég þurfti að leigja mér brjóstadælu til að geta mjólkað handa strákunum mínum. Það gerði ég á 3ja tíma fresti, setti í ísskáp og fór með til þeirra á hverjum morgni. Var hjá þeim til ca. 11-12 á daginn, svo komum við aftur seinnipartinn og vorum fram á kvöld. Ég gerði þetta í rúma 2 mánuði en takmarkið var að hafa þá fram yfir áætlaðan fæðingardag, sem ég gerði.
Eftir 16 daga fengu þeir að fara heim. Búið var að ákveða nöfn á guttana og voru þeir skírðir 18. apríl 2009, á 21 árs afmæli elsta bróðurins. Þeir fengu nöfnin Atli og Ívar.
Þeir voru mjög rólegir í fyrstu en svo fékk tvíburi A, Ívar, magakveisu og tvíburi B, Atli, hélt áfram að gubba og varð eiginlega bara verri. Fór að missa andann oftar og ég var orðin frekar hrædd um hann. Í eitt skiptið hætti hann að anda í dágóðan tíma og ég fór með hann upp á bráðamóttöku þar sem við vorum keyrð með sjúkrabíl á barnadeild Landspítalans og lögð þar inn til rannsóknar. Drengurinn var settur í tæki og tól. Í stuttu máli sagt þá greinist hann með bakflæði og er settur á lyf. Tvíburi A fékk stuttu seinna lyf við magakveisunni.
Í dag eru þessir strákar orðnir 3 ára. Komnir í leikskóla, tala út í eitt. Rífast, slást, öskra, garga, knúsast, hlæja og leika sér. Áhugamál þeirra eru boltar í allri mynd og eru þeir mjög duglegir með þá. Þeir elska hlaupahjólin sín og eru að læra norsku meðfram íslenskunni. Þeir eru mikil matargöt, eru fílhraustir og gefa mikið af sér til allra sem þeir þekkja.
Tek það fram að ekki tókst mér að klippa á frjósemislínuna mína, þannig að maður veit aldrei….
Fríða Björk
Fæðingarsagan mín
LOKSINS LOKSINS! Eftir 10 tíma gangsetningu, 1 mænudeyfingu, aðra sterka, gleðigas allt kvöldið og öskur í mömmu, kom ég í heiminn, þann 11.02.2011, kl. 00:15. Mamma og pabbi grétu nú aðeins þegar skurðlæknirinn sagði að hér væri fædd oggu ponsu lítil prinsessa..Nei ég er að plata, mamma grét alveg helling 🙂 Ég grét bara rosalega lítið og kom spriklandi úr mallakútnum. Ég var bara í 6 tíma uppi á Vökudeild í hitakassanum og fékk að fara daginn eftir niður til mömmu og pabba, það var sko gaman! Ég var aðeins 2060 gr, 46 cm = 8 merkur 🙂 Við mamma lágum bara eina viku uppi á spítala og ég hef einungis verið á NAN-mjólk og aldrei verið veik, bara pínu kvef, annars hraust og fín stelpa. Og núna er ég ca. 9 mánaða gömul, farin að borða graut, mauk, mat og elska að drekka vatn úr glasi, og svo er mjólkurkex í uppáhaldi hjá mér. Einnig er ég farin að skríða út um allt, æfa mig að standa upp og babla mikið við sjálfa mig. Ég var við seinustu skoðun 7,4 kg og 62 cm, og fékk topp 10 í einkunn frá ljósmóður minni og hef fengið frábær viðbrögð gagnvart þroska mínum.
Sveinbjörg Lára
Ef þú vilt deila reynslusögu þinni, sendu okkur endilega skilaboð og mynd gegnum Facebook síðuna @PreemieBirth.